Högni Egilsson hefur um langt árabil verið meðal kunnustu tónlistarmanna landsins. Þessir spennandi tónleikar í Föstudagsröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru helgaðir nýrri sinfónískri tónlist Högna og mun hann einnig koma fram sjálfur með hljómsveitinni í sumum verkanna. Hljómsveitin hefur áður flutt tónlist Högna, meðal annars tekið upp tónlistina fyrir Netflix-sjónvarpsþáttaröðina Kötlu og verða tvö sinfónísk ljóð úr Kötlu flutt á tónleikunum. Ennfremur verða frumflutt verk sem samin eru sérstaklega í tilefni tónleikanna, þar á meðal er fyrsta sinfónía Högna, hans stærsta hljómsveitarverk til þessa.
Halla Oddný Magnúsdóttir ræðir hér við Högna um tónlist hans.