Sofum saman: Dottaði undir stýri

Sofum saman

Sofum saman
Sofum saman: Dottaði undir stýri
Dec 25, 2025 Season 1 Episode 3
sofumsaman.is

Josie Anne er ung kona sem berst við kæfisvefn. Hún segir okkur frá vandamáli sínu sem er of lítill kjálki sem veldur henni heilmiklum svefn vanda.

„Ég heiti Josie Anne og starfa í listageiranum og er verkefnastjóri. Ég er 34 ára og fæddist og ólst upp í Skotlandi en hef búið á Íslandi síðustu fjögur ár. Og ég hef hrotið í mörg ár. Ég held að þetta hafi byrjað einhvern tíma snemma á unglingsárunum.

Starfið mitt er mjög krefjandi og felur oft í sér mikla næturvinnu og óhefðbundinn vinnutíma. Það hefur alltaf hentað mér vel. Ég gat sofið hvenær sem ég þurfti og mér fannst líka í lagi að vera vakandi nánast allan sólarhringinn. Mér fannst ég aldrei þurfa mikinn svefn. Núna geri ég mér grein fyrir því að ég svaf í raun aldrei vel út af því að ég var með kæfisvefn. Líkaminn einfaldlega aðlagaðist litlum svefni

LEITAÐI SÉR LÆKNISHJÁLPAR

„Ég fékk svona hálfvolg viðbrögð, líklega vegna þess að ég er kona og lít ekki út eins og dæmigerður einstaklingur með kæfisvefn. Ég var spurð: „Sofnar þú yfir daginn?“ Og svo mikilvæg spurning tengd því: „Hefurðu einhvern tímann sofnað undir stýri?“

Já, það hefur gerst. Það gerðist bara einu sinni, bara í örstutta stund. En þetta sýnir bara hversu mikil áhrif þetta hefur, að þetta getur valdið því að maður sofni jafnvel í aðstæðum sem eru mjög hættulegar. Þegar ég sagði að ég hefði sofnað undir stýri breyttist allt því að þá var ég augljóslega ekki bara að setja mig í hættu heldur einnig líf annara. Þá var allt sett í gang og ég var send heim með tæki til að mæla svefninn.

„Já, þetta lítur ekki vel út. Kjálkinn þinn er of lítill. Tungan er of stór. Samspilið þarna á milli virkar ekki. Þetta er vandamálið.“ Og það var ekkert sem hann gat gert til að laga þetta.

Hann sagði að ég þyrfti að fara í skurðaðgerð. Hann var mjög rólegur yfir þessu, ekki dramatískur, en sagði jafnframt að þetta væri að skaða mig. Ef ég héldi áfram svona væri of mikill þrýstingur á lungu og hjarta og ég myndi líklega fá hjartaáfall á fimmtugsaldri. Það hafði mikil áhrif á mig að heyra þetta. En það hjálpaði mér líka að átta mig loksins á því að ég yrði að taka þetta alvarlega.

TILRAUNIR MEÐ SVEFNGÓM

Josie ætlar að prufa að sofa með góm og fylgjast með svefninum sínum.

„Það sem ég ætla að prófa núna er gómur, sem maður mótar sjálfur, til að sjá hvort það hafi áhrif á svefninn minn. Ég yrði mjög ánægð ef það gæti gefið mér meiri hvíld og betri heilsu og líðan.

Ég mæli svefninn minn með nokkrum mismunandi tækjum. Ég nota Apple Watch til að mæla lífsmörk, fylgjast með svefnstigum, hjartslætti og fleiru. Ég nota líka app sem heitir SnoreLab. Það tekur upp hljóð í svefni og mælir hversu hátt maður hrýtur. Maður getur hlustað á brot úr upptökunum, sem er frekar vandræðalegt. Ég reyni að gera það ekki. Það er mjög skrýtið að hlusta á sjálfan sig eiga svona erfitt með að anda. Mér fannst það mjög erfitt. Mér líður eins og þetta sé að gerast fyrir einhvern annan, einhvern sem ég vil hjálpa. Það er erfitt að sætta sig við það að eitthvað sem ætti að vera jafn einfalt og að anda sé ekki einfalt fyrir mig. En í alvöru, sem ung kona, þá hef ég í raun enga hugmynd um hvernig er að upplifa góðan nætursvefn. Það er mjög sorglegt.

Mér finnst ég ekki þekkja neinn annan sem er að ganga í gegnum það sama og ég get talað við um þetta. Og eins og ég sagði þurfti ég að segja að ég hafi sofnað undir stýri áður en læknir tók þetta virkilega alvarlega. Þess vegna vil ég deila þessu því að þetta getur haft áhrif á okkur öll. Og ég vildi að ég hefði leitað hjálpar fyrr.“

Við ætlum að heyra betur í Josie Anne og fá að fylgjast með hvernig þessi tilraun hjá henni tekst í hlaðvarpinu Sofum saman.



sofumsaman.is