Álhatturinn
Þrír vinir með enga sérfræðiþekkingu ræða samsæriskenningar á vitrænum og glórulausum nótum.
Álhatturinn
Dauði Elvis Presley var sviðsettur
Elvis Aaron Presley er einn merkasti tónlistarmaður allra tíma og að margra mati óumdeildur konungur rokksins. Með sínum mjaðmahnykkjum og einstakri sviðsframkomu og söng náði hann að heilla heimsbyggðina og verða að ótrúlegri stórstjörnu sem naut hylli allra. En rétt einsog með aðrar stórstjörnur þá var stutt í sukkkið og smám saman fór að síga á ógæfu hliðina.
Elvis sökk djúpt í fen óreglu og fíknar og endaði sem offitusjúklingur og lyfjafíkill sem lést af völdum hjartaáfalls langt fyrir aldur fram. Eða svo segir sagan. En getur verið að Elvis eða einhverjri aðrir á hans vegum hafi hreinlega sviðsett dauða hans?
Var þetta ein allsherjar blekking skipulögð af Elvis og útgáfurisunum til þess að græða meiri peninga? Eða fór Elvis í vitnavernd og felur eftir að hafa borið vitni gegn svikahrappi fyrir rétti? Eða getur verið að mafían og aðrir eigendur spilavídda í Vegas hafi haft eitthvað með málið að gera?
Hvað með vini allra álhatta í FBI? Eða vildu Elvis og fjölskylda kannski fá frið frá öllu sviðsljósinu og um leið skapa mystík í kringum andlát hans til þess að geta markaðssett búgarð hans og heimili Graceland sem stórfenglegan ferðamannastað um ókomna tíð og gera plötur hans vinsælli?
Lengi hefur fólk karpað um það hvort Elvis hafi raunverulega látist 16.Ágúst 1977 eða hreinlega farið í felur. Ef Elvis væri enn á lífi væri hann orðinn níræður sem verður að teljast afar ólíklegt í ljósi óheilbrigðra lifnaðarhátta hans og rokkstjörnu lífernis.
Hann var í mikilli yfirþyngd og bruddi allskyns lyfseðilsskyld lyf af mikilli áfergju, slíkt getur hæglega dregið mann til dauða. En kannski er það bara yfirklór frá FBI, mafíósum til þess að fela sannleika? Heyrst hefur að maður að nafninu John Burroughs, sme var þekkt dulnefni Elvisar, hafi keypt flug frá Menphis til Argentínu sama dag og Elvis lést, en það hefur ekki fengið staðfest auk þess er ekkert beint flug var frá Memphis til Argentínu á þessum tíma.
Hvers vegna var nafnið hans rangt skrifað á dánarvottorðið og legsteininn? Hvað raunverulega varð um Elvis, hvort hann lést 16.ágúst 1977 eða mörgum árum síðar eða lifir jafnvel enn góðu lífi á einhverri sólarströnd, hefur löngum verið mörgum aðdáendum tónlistarmannsins og Álhöttum um veröld alla mikil ráðgáta.
En þetta er einmitt umræðuefni nýjasta þáttarins af Álhattinum þar sem þeir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór velta fyrir sér þeirri langlífu og mjög svo áhugaverðu samsæriskenningu að dauði Elvis Presley hafi verið sviðsettur og eitt stórt sjónarspil. Yfirgaf Elvis í raun bygginguna sem vér köllum Hótel Jörð eða er hann etv enn í byggingunni og á meðal vor?
HLEKKIR Á ÍTAREFNI
- https://youtu.be/rtiIkgfHnWQ?si=2s_V1v-XNC2d9WGvV
- https://youtu.be/szH-VfhXejQ?si=X9NhZYh6k8r_Fcy-
- https://www.youtube.com/watch?v=EDTbURuSPp4
UM ÁLHATTINN
Í þessu einstaka hlaðvarpi munu vinirnir og spekúlantarnir Ómar Þór Ómarsson, Haukur Ísbjörn Jóhannsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson taka fyrir og fara yfir samsæriskenningar af ýmsum toga og ræða þær fram og til baka.
Í hverjum þætti verður ein fullyrðing rædd og munu þeir gefa einkunn á bilinu 1-10 byggt á því hversu sammála þeir eru fullyrðingunni í upphafi ferlisins. Síðan þegar þættinum er lokið gefa þeir aðra einkunn og þá mun koma í ljós hversu mikið afstaða þeirra hefur breyst.