Álhatturinn

Leynileg klíka stefnir að New World Order eða hinni nýju heimsskipan

Til er fólk sem trúir því staðfastlega að heimurinn sé í óreiðu vegna vankunnáttu, mistaka vanhæfni stjórnmálafólks eða einhverskonar náttúrulegs glundroða. En svo eru aðrir, sem sumir hafa útnefnt Álhatta, sem telja að heimurinn sé í raun þaulskipulagður af myrkum og illum öflum og að heimurin sé vísvitandi að versna vegna áætlana þessara afla. 

Kenningin um hina svokölluðu nýju heimsskipan „New World Order“ (NWO) er líklega ein sú langlífasta og yfirgripsmesta af þeim öllum. Þar er því haldið fram að leynileg alþjóðleg elíta og  nokkurs konar valdaklíka úr röðum stjórnvalda, bankamanna og iðnjöfra vinni í skjóli nætur að því að koma á nýrri heimsskipan. Heimi þar sem þjóðríki eru leyst upp, sjálfsákvörðunarréttur landa afnuminn, og mannkynið situr allt undirgefið undir grjóthörðu miðstýrðu eftirlitskerfi elítunnar.

En hverjir eru þessir huldumenn og konur í myrku reykfylltu bakherbergjunum?  Er þetta bara öfgakennt rugl og þvaður einhverra vitfyrringa með alvarlegar ranghugmyndir eða vel skjalfest saga sem teygir sig langt aftur? Hvernig tengist þetta Bilderberg-hópnum, frímúrarareglunni, WEF og World Bank? Var Maastrichtar-sáttmálinn bara eitt smátt skref í átt að NWO? Og hvers vegna er eins og enginn hafi nokkurntíman kosið um þessi „framtíðarsýn“? Hvar er lýðræðiið í því. 

Í þessum nýjasta þætti af Álhattinum velta þeir Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór því fyrir sér hvort að NWO sé raunveruleg þaulskipulögð áætlun  voldugra afla, til að sameina heiminn undir einni risavaxinni alheimsstjórn, sem mun stýra almenningi eins og  Sims karakterum. Eða hvort það sé einfaldlega einn stór misskilningur, þar sem ræðuhöld og opinberar stefnumótandi áætlanir hafa verið rangtúlkaðar af tortryggnum netverjum með full mikinn frítíma.

Hvað er það sem veldur því að þessi kenning heldur áfram að lifa og dafna? Hverjir eiga að fá að ráða í hinni nýju heimsskipan  og hverjir verða undir? Hvað felst í slagorðum eins og „Build Back Better“, „The Great Reset“ og „One World Government“ þegar þau eru skoðuð í samhengi við valdafólk á Davos?

Þetta og svo margt, margt fleira í nýjasta þætti Álhattarins, sem er einungis fyrri hlutinn af tveimur, þar sem þeir félagar velta því fyrir sér hvort leynileg valdaklíka stefni að hinnu nýju heimsskipan(e: new world order) bakvið tjöldin. 

HLEKKIR Á ÍTAREFNI

UM ÁLHATTINN
Í þessu einstaka hlaðvarpi munu vinirnir og spekúlantarnir Ómar Þór Ómarsson, Haukur Ísbjörn Jóhannsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson taka fyrir og fara yfir samsæriskenningar af ýmsum toga og ræða þær fram og til baka.

Í hverjum þætti verður ein fullyrðing rædd og munu þeir gefa einkunn á bilinu 1-10 byggt á því hversu sammála þeir eru fullyrðingunni í upphafi ferlisins. Síðan þegar þættinum er lokið gefa þeir aðra einkunn og þá mun koma í ljós hversu mikið afstaða þeirra hefur breyst.