Flimtan og fáryrði

53 – Nazgúlaskrækir brjóstmylkinga

Gunnlaugur Bjarnason and Ármann Jakobsson Season 4 Episode 53

Nú beina Gunnlaugur og Ármann sjónum að sjálfum Richard Wagner og tveimur af þekktustu óperum hans, Rínargullinu og Valkyrjunni. Gunnlaugur rekur raunir sínar úr alþjóðlegum Wagner-hópum og síðan berst talið að jafnvel enn verri aðdáendum hans sem höfðu listamannsmetnað sjálfir. Eins ræða þeir Gesamtkunstwerk og „willing suspension of disbelief“,  framburðarslekju, „verkamannaklassík“ og hið mikla dúettatímabil, ofstuðlun Wagners, áhrif hans á John Williams og JRR Tolkien, ægishjálma og grimmdarónæmi, lepp Óðins og Moshe Dayan, hundingja og brjóstumkennanlega dverga, háa f-ið og drengi í mútum, breytta endurtekningu og frjálslegar goðsagnatúlkanir. En er helsta einkenni sérfræðinga að ekkert skilst sem þeir segja? Var Mahler „Gloomy Gus“ og Freddy Mercury „grænseoverskridende“? Er klæmið að draga augað í pung? Ættu allir fundir Miðflokksins að hefjast á aríu Sigmundar? Þýðir hojotoho eitthvað? Líkar fasistabullum illa við nútímalist? Var pappadrekinn Katla ógnvekjandi á sínum tíma? Er skynsamlegt að taka af sér ósýnileikahring fyrir framan mannætukóngulær? Hversu lengi getur maður verið að draga sverð úr tré? Og hvernig tókst Lady Mondegreen að troða sér inn í þennan þátt?