
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
9. Eru öll börn dramadrottningar?
Dísa Ljósálfur var mikill örlagavaldur í lífi Steinunnar Ólínu enda sólgin í drama en eru þær bækur sem við lásum í æsku áhrifavaldar í lífi okkar sem fullorðinna kvenna? Dóru er tíðrætt um froska og glæpastorka...verðum við ekki að læra að skilja og elska glæpadýr líka, því erum við ekki öll bæði vond og góð? Steinunn og Halldóra eru alveg sammála um eitt; það er glatað að láta klippa af sér vængina, því við viljum öll fljúga á milli greinanna í veraldarskóginum!