
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
10. ...Þau verða leið á lestri í bók, en lángar að sofa hjá...
Í þessum þætti er það ástin og augun og ástin í augunum. Hvað má sjá í augum þeirra sem eldri eru...? Steina heldur að hún gæti verið dóttir leikarans Marty Feldman af því að hún er með svo útstæð augu en Dóra er örugglega dóttir foreldra sinna. Steina kann ljóð utan að sem Dóra kann ekki en það kemur ekki að sök því þær hafa báðar fengið hrós fyrir að vera vel máli farnar. Er hægt að fá verðlaun fyrir hlaðvarpsmálfar? þær vilja keppa í því!