
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
14. Spáum í spilin 2025
Steinunn er afburða beinþýðandi á meðan Halldóra fattaði á ögurstundu hvað hún er léleg í ensku. Köttur hefur hægðir í beinni. Tsjíkú-ví er ákall til kakaóguðsins og það skal hrópa þegar drukkið er alvöru- kakaó sem að þessu sinni er bragðbætt með stjörnuanís og einhverju sem enginn getur munað hvað heitir! Mun bókin deyja drottni sínum í framtíðinni eða er myndmálið það sem koma skal! Halldóra og Steinunn láta spilin segja til um framtíðina enda eru spádómar það eina haldbæra í heiminum!