
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
16. Manngerðirnar og baslið eilífa við egóið
Steinu fannst á unglingsárunum Dóra alltaf vera há og spengileg á meðan hún upplifði sig sem litla kiðfætta buddu. Dóra segir Ólöfu Skaftadóttur vera alvöru knattspyrnukonu en sjálf hafi hún aðeins leikið handboltamanneskju. Steinunn hefur gaman af kvartsáru fólki upp að ákveðnu marki en Dóra hefur litla elsku fyrir slíku. Ef sá sem kvartar fer í taugarnar á manni þá hlýtur sá hinn sami að minna mann á sinn eigin kvartara, ekki satt? Dóra fer inn í hégómleikann og dettur í samanburðinn en til allrar hamingju opnar hún sig um það því annars hefði þetta orðið að gigt eða tannskemmd að mati Steinunnar. Stóra spurningin er samt afhverju er allt í mannlegum samskiptum orðið að viðskiptum?