
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
19. Hugleiðsla, Botox og betri líðan
Flensa dró Steinunni nær til dauða og henni batnaði ekki fyrr en henni höfðu verið færðir svo margir blómvendir að heimilið minnti á líknardeild. Dóra vænir vinkonu sína um að hafa farið í botox en Steinunn segir þetta nýja 'look' stafa af massívum varaþurrk. Báðar gangast vinkonurnar við útlitsröskun en spurningin er; Afhverju byrjar svona geðveiki að búa um sig? Dóra lærði að finna ljósið í þriðja auganu á hugleiðslunámskeiði í Oxfordskíri og veit nú að sálin býr ekki í hjartanu. Þær eru sammála um að venjur á kvöldin geta bætt nætursvefn og því skuli af kostgæfni velja hvað sé hollt að taka inn af heimsins amstri og hvað ekki.