
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
20. Bylting miðaldra þjónustufulltrúa (kvenna)
Eru konur alltaf að gerast þjónustufulltrúar án þess að gera sér grein fyrir því? Halldóra og Steinunn vilja nýja vængi enda búnar að vera þjónustufulltrúar í þrjá áratugi. Halldóra er meira miðaldra en Steina því hún heldur að það heiti ,,að larpa“ þegar unglingar eru ,,að lana.“ Eru barnaherbergi og stærð þeirra misskilningur frá upphafi til enda? Um það tjáir Steinunn sig enda var hún með svo lítið barnaherbergi að Harry Potter á ekkert í hana. Báðar eru þær á tímamótum og vilja nýtt upphaf og enga þræði sem halda þeim niðri. Ef Halldóra flokkar skrúfur langar Sreinunni að gefa henni vítissóda. Er bylting miðaldra kvenna á næsta leyti, ekki ber á öðru.