
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
21. Ég bið að heilsa eftir Inga T.
Er Halldóra gerviflautuleikari eða alvöruflautuleikari, þar er efinn! Finnst öllum gaman að dansa? Hver vill vera athyglissjúka leikkonan sem lætur á sér bera á viðburðum annara? Steinunn deilir því að amma hennar hnerraði sjö sinnum en er augljóslega eftirbátur hennar því í þættinum hnerrar hún aðeins fimm sinnum. Er það forboði um eitthvað? Ferðasöngbók er til umræðu enda ættu slíkar að vera til á öllum heimilum. Steina les ljóð en Halldóru tekst að heyra það ekki þótt hún sitji við hlið hennar. Lagt er á ráðin með að halda á elliheimili agalega söngskemmtun að næturlagi þar sem þær ætla sér að flytja öll lögin í söngbókinni. Leynist í söngbókinni spá fyrir komandi viku? Skvetta, falla, hossa, hrista! Steinunn áminnir Halldóru um að hún hefur algerlega vanrækt sína nánustu en Halldóra segir að engin hafi saknað hennar þótt hún hafi verið fjarverandi. Eru mæður kannski ónauðsynlegar.