
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
22. Þið munið öll! Þið munið öll!
Fæddar 68´og 69' ólust þær vinkonurnar upp við kjarnorkuvána ógurlegu og núna ríflega 50 árum síðar eru kjarnorkustríðsógnanir að trenda aftur. Þá er bara eitt í stöðunni að skella sér niður í kjarnorkubyrgi Svövu Jakobsdóttur og leikrit hennar LOKAÆFINGU sem fjallar um íslensk hjón sem loka sig inni í einu slíku. Vill maður reyna að lifa af í slíku stríði eða deyja bara drottni sínum í blossanum eins og Halldóra málar það upp? Dálítið er talað um sjálfsfróun og kynheilsu kvenna, er kynorkan eftir allt heilunarorka? Steinunn er fullviss um að breytingaskeiðið er markaðssett sem helvíti á jörðu til að lama konur og til að selja þeim lyf í stað þess að breytingaskeiðið sé markaðssett sem nýtt upphaf, ný byrjun þar sem margar kvaðir eru að baki og kannski loks kominn langþráður tími til að hugsa betur um sjálfa sig.