
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
24. Kattaskítur og rándýr ilmvötn
Halldóra hefur lagt í vana sinn að kaupa rándýr ilmvötn en nota þau síðan bara í einn dag á meðan Steinunn notaði sama ilmvatnið í þrjá áratugi en smyr sig nú eingöngu með ilmkjarnaolíum. Bókin Ilmurinn kemur við sögu, en á að hend'enni? Pablo, köttur á heimili Steinunnar skítur í blómapott og er hótað lífláti í miðjum þætti. Mun hann hálshogginn verða? Verður aftakan í beinni? Steinunn fullyrðir að við séum ekki að nýta skynfærin til hins ýtrasta? Gætum við lært að sjá með eyrunum? Hvernig plata má leigusala til að samþykkja hunda í leiguhúsnæði er kennt enda dettur fólki ýmislegt í hug til að ná vilja sínum fram.