
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
25. Lemdu á þér mjaðmirnar til að ná jarðsambandi
Steinunn er svo róleg í þessum þætti að halda mætti að hún eigi stutt eftir. Misgóðar ráðleggingar til stúlkna frá fyrri öldum koma fyrir þótt þær þættu nú ekki góðar tvíbökur í dag! Er gott að reyna að gleyma öllu því sem höfuðið spinnur upp og hugsa bara með hjartanu? Þegar Dóra fær áhuga á einhverju kviknar orka í líkamanum á henni, hvað meinar hún? Jónas Hallgrímsson svífur yfir vötnum. Halldóra setur fram kenningu: Kennarar velja sér að kenna það sem þeir voru verstir í og svo lemur hún sig í mjaðmirnar til að ná jarðtengingu. Hvernig er best að bregðast við ef einhver hverfur úr lífi manns eða bara missir áhuga á manni?
Takk fyrir samstarfið: Íslandsbanki - Icelandair - Ó. Johnson & Kaaber