
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
29. Voru páska-endurnar í Biblíunni? (páskaþáttur)
Það er ekki gott að segja hvað fer fram í þessum þætti. Sjálf Biblían er undir en Halldóra getur ekki fyrir sitt litla líf fundið það sem hún ætlaði að lesa í hinni Helgu Bók! Krossfestinguna ber á góma enda styttist mjög í píslargöngu alls mannkyns og allir örugglega fyrir löngu búnir að afflísa litlu krossana sína. Þær ráðast nú heldur betur á garðinn þar sem hann er lægstur þegar þær harðfullorðnar konurnar reyna að ,,döbba´´endur, undir lok þáttarins. Andvarpa munu allir að þætti loknum.