
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
30. Viljiði vita leyndarmál? (The Secret)
Fyrir leyndarmálasækna er þessi þáttur kannski nákvæmlega það sem þið voruð að leita að. Reyndar eru töluverðar líkur á að þið munið eiga erfitt með að skilja hvað fer fram, en það er vegna þess að Steinunn er komin á það sem hún kallar Tea n' Biscuits aldurinn! Dóra gerir uppgötvun! og mun svara því í þættinum, hvaða peningarnir koma! En það er sumsé bókin THE SECRET...fornfrægðarskrudda sem átti að þjálfa með fólki aðdráttaraflið sem býr innra með okkur öllum. En það þarf ýmislegt til að læra að bjóða því góða heim, nokkuð sem þær báðar eru að stúdera af nokkrum krafti.