
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
39. Að selja sig eða selja sig ekki (Spámaðurinn Kahil Gibran)
Að vera þræll markaðarins en vilja það eiginlega ekki er efst baugi. Stöllurnar Steinunn og Halldóra viðurkenna á sig vandræðagang miðaldra kvenna sem reyna að fóta sig á samfélagsmiðlum í ýmsum tilgangi. Þær leggjast svo lágt að biðla til hlustenda að dreifa fagnaðarerindinu þ.e podcasti þeirra - ekki er öll vitleysan eins. Sálarferðalagið er áfram til umræðu enda eru allir í rusli eða þess hefur Dóra orðið áskynja allt um kring og styður vedíska stjörnuspekin það vitanlega og þá er ekki annað í stöðunni en að grípa í Spámanninn og fletta upp heilræðum til að feta sig eftir.