
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
42. Fjallatussur og hin guðdómlegi kvenleiki (Gullkorn úr íslenskum bókmenntum)
Þessi þáttur er tekin upp á uppáhalds hang-outi þeirra vinkvenna, andlega menningarheimilinu Mama í bakarabrekkunni. Nú er loks hægt að velta fyrir sér kvenleikanum þar sem þær eru báðar komnar fram yfir síðasta söludag og í Halldóru er að fæðast fjallatussa. Ljósu og dökku hliðar kvenleikans og karlmennskunnar eru krufnar til mergjar enda löngu komin tími til að í það mál allt fáist niðurstaða áður en Steinunn kyrkir sína ljósu karlmennskuhlið. En þetta er að öðrum þræði þáttur um það hvað maður er ímyndunarveikur um mikilvægi sitt í lífi annarra. Fyrir söngelska er þátturinn kannski ríkulegur því töluvert er sungið, rappað og skattað.
Takk fyrir samstarfið: Íslandsbanki, Icelandair, Beautyklúbburinn