
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
43. Þar sem háir hælar hálfan dalinn fylla (Leikrit eftir AI og Ljóð eftir RUMI)
Tröllskessurnar Fossatussa og Fjallatussa létu AI skrifa fyrir sig leikrit og um það skal fátt sagt utan það að það er ansi lélegt en stóra spurning dagsins er: Ertu dropinn í hafinu eða hafið í dropanum? Er auðveldara að vera allt en að vera eitthvað afskaplega smátt? Töluverð hætta virðist vera á því að Steinunn sé að gerast súfisti því hún leggur nú stund á snúningsdans sem kemur jafnvægi á vagus taugina sem engin veit neitt um. Melónur koma við sögu en er hægt að senda persónuleikann sinn í frí? Kannski senda hann bara til útlanda svo sálin fái meira vægi því hún er heilanum vitrari og víðsýnni. Persónuleikinn þinn gæti viljað vera kokteilboðum en hvar vill sálin vera? Kannski bara með öðrum sálum?
Takk fyrir samstarfið: Íslandsbanki, Icelandair, Beautyklúbburinn