
Á ég að hend'enni?
Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína hafa marga fjöruna sopið, stundum saman, stundum sundur. Nú í miðju lífsins er tiltekt innra jafnt sem ytra efst á baugi og því ætla þær að bera saman bækur sínar í orðsins fyllstu merkingu.
Þær ætla að byrja á því að gera rassíu í bókaskápunum. Skilja sauði frá höfrum, finna gersemar og handsama lygaþvælu og rusl.
Í hverjum þætti draga þær fram skruddur og meta hvort nauðsynlegt sé að eiga skræðuna áfram, hvort lærdómur hafi verið meðtekinn eða alls ekki.
Fer hún í öndvegi, í Hirðinn, eða er öruggast að brenna hana á báli?
Rannsóknarspurningin er: Eiga, eyða eða gefa?
Því einhvers staðar þarf tiltektin að byrja!
Á ég að hend'enni?
47. Að koma út úr skápnum sem völva (Völva Suðurnesja)
Það kemur á daginn að bæði Halldóra og Steinunn telja sig völvur svo það er um að gera að fara að panta hjá þeim tíma. Þær ræða hvernig sýnir og hlutir birtast þeim eins og þetta rugl sé einhver vitniburður um forspárgáfu þeirra. En til umhugsunar er bókin, Völva Suðurnesja um alvöru íslenska völvu sem sagði: Ég er að sjá“, þegar hún var lítil og fór sálförum. Steinunn fær afmælisgjöf og dregur spil fyrir Dóru. Báðar segja þær af brúðkaupum helgarinnar en Halldóra veislustýrði í einu slíku því hálfbróður hennar gekk að eiga fræga íslenska söngkonu.